Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1012, 113. löggjafarþing 445. mál: Útflutningsráð Íslands (álagning og innheimta gjalda).
Lög nr. 38 18. mars 1991.

Lög um breyting á lögum nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands.


1. gr.

     3. gr. laganna orðist svo:
     Tekjur Útflutningsráðs eru:
  1. sérstakt gjald sem lagt er á aðstöðugjaldsstofn gjaldskyldra aðila, sbr. 2. mgr.,
  2. framlag ríkissjóðs,
  3. þóknun fyrir veitta þjónustu,
  4. sérstök framlög og aðrar tekjur.

     Gjaldskyldir aðilar, sbr. 1. tölul. 1. mgr., eru allir þeir sem hafa með höndum rekstur á sviði eftirtalinna atvinnugreina samkvæmt því gjaldstigi er hér greinir:
  1. fiskvinnslu og iðnaðar, þar með talin byggingarstarfsemi, 0,05% af gjaldstofni;
  2. fiskveiða, 0,03% af gjaldstofni;
  3. flutninga á sjó og flugrekstrar, 0,01% af gjaldstofni. Undanþeginn er þó gjaldstofn vegna strandflutninga og innanlandsflugs.

     Einnig nær gjaldskyldan til þeirra aðila í öðrum atvinnugreinum sem kjósa sjálfir að gerast aðilar að Útflutningsráði og skal gjald þeirra vera 0,01% af gjaldstofni.
     Um álagningu og innheimtu gjalds skv. 2. mgr. fer eftir ákvæðum VIII.– XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á. Innheimtuaðilar skulu skila mánaðarlega til Útflutningsráðs innheimtum gjöldum.
     Gjald samkvæmt þessari grein má draga frá tekjum á sama hátt og aðstöðugjald.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1991 vegna rekstrar á árinu 1990.

Samþykkt á Alþingi 15. mars 1991.